Monday, January 29, 2007

Ég halla mér að þér og flýg



Tangóljóðasyrpan Ég halla mér að þér og flýg - Engin venjuleg ferðasaga eftir Kristínu Bjarnadóttur kom út í bókarformi 2007 og var kynnt á fyrstu milongu ársins, í Iðnó við Tjörnina þriðjudaginn 2. janúar.

(Sjá frétt á heimasíðu íslenska Tangófélagsins í dálknum Allt um tangó.)

Ég halla mér að þér og flýg, er önnur bók Kristínar í ritröð um dans og enn er argentínski tangóinn í aðalhlutverki.
Hany Hadaya, tangódansari, kennari og grafískur hönnuður www.h2h.is/ sá um kápuhönnun; setning og umbrot Birgitta Jónsdóttir, skáld.

Bókin er prentuð í Litróf og Kramhúsið styrkti útgáfuna.

kb.Lyng - Bókaútgáfa - Reykjavík 2007 *ISBN – 13 -978-9979-70-055-5

*

Hvar fæst bókin?

Bókin er til sölu í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi, Pennanum í Austurstræti, Eymundsson í Kringlunni, Bóksölu Stúdenta við Hringbraut og í Tólf Tónum við Skólavörðustíg.

Á Akureyri er það Penninn Bókval - Hafnarstræti 91-93 sem sér um söluna.

*


Hvað segja lesendur?


„Hnyttin, skemmtileg og raunsönn ferðasaga til tangóborgarinnar Buenos Aires.
Myndmálið í ljóðunum er eins og tónlist og textinn er tangóspunaflæði. Ég skynja hreyfingu, snertingu, nærveru, mýkt og spennu. Perla handa tangóunnendum.”

Bryndís Halldórsdóttir, tangódansari og kennari

"sterkur hrynjandi - mikil saga - og mögnuð undiralda sem vekur upp þrá og trega í senn.”

Linda Vilhjálmsdóttir, ljóðskáld


... sterkur myndrænn heimur... ljóðin eru eins konar gluggi inn í veröld tangósins og alvöru ástríðutangódansara...“

Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir, leikskáld





Fleiri ummæli - brot úr bréfum, birt með leyfi bréfritara:

... Efni hennar kom mér satt að segja skemmtilega á óvart: mér hefur aldrei dottið það í hug fyrr, að það væri hægt að skrifa heilmikla bók um eina danstegundina. (Ég man samt, að það hefur verið a.m.k. eitt dæmi um langan ljóðaflokk tileinkaðan bara einum dansi og það akkurat í spænskumælandi heiminum, nefnilega ljóðaflokkur Federico Garcia Lorca um flamenkó). Nú kann ég ekki að meta bókina "dansafræðilega" séð, enda kann ég sjálf ekki að dansa, en ég upplifaði hana meira eins og listræna kennslubók í tangó. Það má reyndar lesa hana sem einskonar kennslubók, og uppbygging hennar gefur ástæðu til þess: fyrst kemur "teóretiskur" inngangur, svo einskonar yfirlit yfir menningasögu Argentínu, upphafslands tangódanssins, og svo er farið í einstök atriði sem tengjast dansinum, einsog dansspor, samskipti við danskennara, og heimspeki tangódanssins ("ekki hugsa neitt") o.s.frv.

Olga Markelova, skáld og bókmenntafræðingur

*


... var að lesa nýja, allt í senn: skemmtilega, tilfinningaríka, dulúðlega, alvarlega, lífsglaða, humoristiska ljóðabók Kristínar. Takk, Kristín!

Séra Ágúst Einarsson, prestur í Gautaborg (úr bréfi sent á hóp áhugafólks um bókmenntir)

*

... ég er búin að lesa báða bækurnar og fannst þær yndislegar og mjög sérstakar.
Mér fannst óskaplega gaman að gægjast inn í heim tangódansara og sjá að allskyns reglur gilda þar skráðar og óskráðar - eða kannski bara óskráðar.
Ég "fíla það algjörlega í ræmur", einsog krakkarnir segja, þegar konur fara sínar eigin leiðir í lífinu ...

Anna Karin Júlíussen
félagsráðgjafi

*

Ég las hana í nánast einum rykk, fljótlega eftir að ég flutti til Brighton. Og ummmm....hvað hún var skemmtileg. Og ég sem sagðist ekki hafa gaman af ljóðum. En ég las þetta bara eins og sögu. Ég hef náttúrulega svo gaman af öllu sem er S-Amerískt, mér tókst að setja mig í þín spor og ég var næstum því komin sjálf til Buones Aires. Nú er ég enn ákveðnari í að fara þangað einhvern daginn.

Freyja Kristinsdóttir,
dýralæknir í Englandi

*

„... lipur texti og hnyttilegur ... jafnvel ekkitangófífl skynja það og geta skemmt sér við lesturinn."
"Lárus bróðir" - Lárus Hagalín Bjarnason
stærðfræðingur m. m.

*

Tölvupóst með skemmtilegum athugasemdum og fyrirspurnum má senda til höfundar og útgefenda á kb.lyng@gmail.com